Heiða, eða Ragnheiður eins og hún heitir en er alltaf kölluð Heiða og stundum Norðan-Heiða á tyllidögum, er fædd á Akureyri þann 13. október 1978. Hún hefur lengst af ævinnar búið á Akureyri en hefur tvívegis sótt skóla til Reykjavíkur. Iðnskóla hafnarfjarðar á hönnunarbraut og síðar í tækniskóla Reykjavíkur í ljósmyndun 2004 þaðan sem hún útskrifaðist með sveinspróf í ljósmyndun árið 2006 eftir árs samning hjá Grími Bjarnarsyni ljósmyndara. í millitíðinni kláraði hún stúdentinn frá Verkmenntaskóla Akureyrar.

Frá þriggja til níu ára aldurs átti Heiða heima í Óðinsvéum í Danmörku og árin 2000-2001 bjó hún í Montpellier i Frakklandi. Áhugi hennar á ljósmyndun kviknaði einmitt fyrir alvöru á Frakklandsárunum og hann þakkar hún Pétri Thomsen frændi sínum sem þá var í framhaldsnámi í ljósmyndun í Montpellier. Hann sýndi henni og kenndi margt gagnlegt í tengslum við ljósmyndatæknina sem komið hefur henni að gagni æ síðan.

Heiða var reyndar í Frakklandi til að læra frönsku en ekki ljósmyndun. Hún kom hins vegar heim til Íslands full áhuga á öllu í sambandi við ljósmyndun en fátt segir af frönskunni
Heiða er gift Þorsteini Guðbjörnssyni og eiga þau fjögur börn. Hún á og rekur ljósmyndastofu í húsi sínu (neðri hæðinni) að Þrumutúni 8 á Akureyri.

Barnaljósmyndun hefur verið sérstakt áhugamál hjá Heiðu á undanförnum árum. Það er líka það svið ljósmyndunar sem hún er mest þekkt fyrir. Þessi mikli áhugi Heiðu á ljósmyndun yfirleitt varð einmitt til þess að Heiða lærði hjá Grími Bjarnasyni ljósmyndara í Reykjavík. Það gerðist eftir að Grímur varð fyrir miklu spurningaflóði frá hennar hendi í boði sem þau bæði voru í, hann dáðist af þessum mikla áhuga hjá henni, og í framhaldinu bauð hann henni á samning hjá sér í ljósmyndun.

Grím Bjarnason ljósmyndara þekkja margir, hann hefur langa og fjölbreytta reynslu að baki, einkum ljósmyndun fyrir stærri fyrirtæki og leikhús landsins.

Heiða hefur alltaf verið mikill dýravinur og varla líður sá dagur að hún taki ekki myndir af einhverjum dýrum, einkum hundum. Hún tók t.d. allar ljósmyndir sem birtar eru í bókinni “Gerðu besta vininn betri” sem er bók um hundaþjálfun, skrifuð af Heiðrúnu Villu. Sem og bókin Ungbarnanudd sem hún gerði í samstarfi við Dillu - Dýrleif Skjóldal.